Fjóla Signý Hannesdóttir, gulrófnabóndi í Stóru-Sandvík í Flóa, fékk nýverið heimsókn frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og er ekki sátt við upphæðina sem hún þarf að borga fyrir heimsóknina.
Tilefni heimsóknarinnar frá heilbrigðiseftirlitinu var að kanna magn eiturefna í ræktuninni. Fjóla hefur ekki notað varnarefni við ræktunina í fleiri ár. Hún var því ekki hissa þegar hún fékk þá niðurstöðu að engin eiturefni hefðu fundist hjá henni. En það sem kom henni á óvart var upphæðin sem hún þurfti að borga fyrir þessa óvæntu heimsókn, eða tæp 140 þúsund krónur.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands segist fara eftir tilmælum MAST. MAST er sammála því að þetta gjald geti verið íþyngjandi fyrir grænmetisbændur en einungis sé verið að fara eftir lögum sem Alþingi setur. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands er á því að það megi endurskoða þetta regluverk og hvernig er rukkað fyrir sýnatökuna.
Sjálfboðavinna og hugsjónarstarf
Rukkunin fyrir þessa sýnatöku kemur á versta tíma fyrir Fjólu. „Ég er með mjög lítinn rekstur sem er nær alveg unninn í sjálfboðavinnu og í hugsjónastarfi, bæði að rækta rófurnar og rófufræið. Þannig að 140.000 krónur er veruleg upphæð fyrir mig,“ segir Fjóla í samtali við sunnlenska.is.
Fjóla segist ekki vera búin að fá reikninginn þar sem hún bað um greiðslufrest. „Á haustin er lítið inni á bankareikningnum þar sem maður er ekki búinn að vera að selja rófur í einhverja mánuði og er alltaf að borga einhverja fasta reikninga, kostnað við rófuupptökuna og fleira. Þannig að ég var búin að biðja um að fá greiðslufrest og það var alveg tekið vel í það – sem betur fer.“
Ósanngjarnt að smáframleiðendur borgi það sama og hinir
Fjóla er á þeirri skoðun að það ætti ekki að rukka bændur um þessa föstu upphæð heldur ætti hún að vera í samræmi við stærð ræktunarinnar.
„Það væri hægt að hafa einhverjar ívilnanir fyrir smáframleiðendur, öll svona gjöld og kostnaður eru náttúrulega þyngri fyrir minni rekstur og það er kannski ekki alveg sanngjarnt að einhver sem er tíu sinnum stærri þurfi að borga sömu upphæð og ég.“
„Í rauninni finnst mér sanngjarnt að rukka ef það kæmi eitthvað í ljós við sýnatökuna, eins og í þessu tilfelli að ég væri að nota einhver eiturefni og væri ekki með leyfi til þess. Eða þá að maður væri að nota meira en maður hefði leyfi til. Það ætti miklu frekar að sekta en að þeir séu bara að vinna einhverja eftirlitsvinnu sem maður þarf að borga fyrir.“
Misjafnt eftir landshlutum hver þarf að borga
Fjóla deildi reynslu sinni af heimsókninni frá heilbrigðiseftirlitinu á samfélagsmiðlum og fékk mikil viðbrögð í kjölfarið.
„Bóndi á Vesturlandi sá þetta á Instagram hjá mér og sendi mér skilaboð. Hann sagði mér að hann hefði fengið eins heimsókn til sín frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands í fyrra. Hann þurfti ekki að borga fyrir þessa heimsókn og hvatti mig til að kanna réttarstöðu mína, hvort ég þyrfti raunverulega að borga þetta.“
„Þannig að ég fór að kanna þetta aðeins betur og hringdi í Heilbrigðiseftirlit Vesturlands. Þá kom í ljós að það er ekki alveg sama hver það er sem er að gera þetta eftirlit eða hvern er verið að rukka. Heilbrigðiseftirlitið er í raun og veru bara að fylgja tilmælum frá MAST.“
Er mjög hlynnt eftirliti með ræktun
Fjóla vill taka fram að hún sé mjög hlynnt því að það sé eftirlit með ræktun og matvælum.
„Ég mjög hlynnt því að það sé ekki verið að nota nein eiturefni ef það er hægt. Og þeir bændur sem eru að nota eiturefni séu þá með tilskilin leyfi fyrir því, þannig að ég er mjög hlynnt því að það sé eftirlit. Ég bara ekkert mjög hlynnt því að ég og aðrir smábændur þurfi að borga þetta. Það er alltaf verið að tala um að styðja betur við bændur en þetta er svolítið á skjön við það og ekki beint hvetjandi þegar það kemur svona óvæntur reikningur.”
Meiri skynsemi að rukka ef varnarefni væru yfir mörkum
Sunnlenska.is hafði samband við Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands.
„Varnarefnasýnataka byrjaði fyrir um fjórum árum síðan og hefur komið í hlut Heilbrigðiseftirlits Vesturlands að taka 1-2 sýni á ári. Verkefnið er skipulagt af Matvælastofnun sem hefur mælst til að sýni séu tekin af ákveðinni tegund grænmetis. Á þessu ári var tekið eitt sýni af papriku en á Vesturlandi er einn smáframleiðandi á papriku. Kostnaðurinn við varnarefnamælingu er um 140 þúsund krónur,“ segir Þorsteinn.
„Heilbrigðiseftirlitið hefur eftirlit með starfseminni í samræmi við matvælalöggjöfina sem felst í úttekt á aðbúnaði og neysluvatni þar sem það á við. Árlegt eftirlitsgjald er tæpar 36 þúsund krónur en eftirlit fer að jafnaði fram fjórða hvert ár. Ég hef ekki talið skynsamlegt að velta þessu gjaldi af fullum þunga á þennan eina aðila, heldur litið svo á að árleg eftirlitsgjöld standi undir kostnaði eins og hæfilegt sé. Niðurstaða mælingarinnar var að engin varnarefni voru notuð. Löggjöfin gerir ráð fyrir að framleiðendur greiði kostnaðinn við þessar mælingar sem má segja að sé ósanngjarnt ef ekki eru notuð varnarefni og væri önnur nálgun á eftirlitinu að kanna varnarefnanotkun í bókhaldi. Það má kannski segja að það væri meiri skynsemi að senda reikninginn ef varnarefni sem væru yfir mörkum fyndust í sýninu,“ segir Þorsteinn ennfremur.
Þorsteinn vill bæta því við að ef heilbrigðiseftirlitinu væri falið að gera áhættumat þar sem litlir framleiðendur eiga í hlut þá væri áhættan kannski metin lítil og því ekki tekin varnarefnasýni hjá þeim þessum aðilum.
Eru einungis að fylgja reglugerðum
Ágúst Óskar Sigurðsson, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, segir í samtali við sunnlenska.is að ef varnaefni greinast yfir hámarksgildum hafi það afleiðingar fyrir viðkomandi framleiðanda og hefur það gerst í nokkur skipti nú á allra síðustu árum.
„Samkvæmt matvælalögum eru það matvælafyrirtækin sjálf en ekki eftirlitsstofnanir sem eiga að greiða kostnað við matvælaeftirlit á Íslandi. Leitast er við að dreifa sýnatökum á sem flesta, taka ekki meira en eitt sýni á aðila ef hægt er en greiningarkostnaður skal greiðast af framleiðanda,“ segir Ágúst.
Kostnaður íþyngjandi fyrir fyrir grænmetisbændur
Sunnlenska.is hafði samband við Katrínu Guðjónsdóttur, deildarstjóra hjá MAST, til að kanna viðhorf þeirra til þessarar sýnatöku.
„Ég get alveg tekið undir með að kostnaður vegna sýnatöku og greininga á varnarefnaleifum er umtalsverður og íþyngjandi fyrir grænmetisbændur, einkum smáa. Enda hefur innlendum sýnum verið fækkað um helming síðustu ár. Engu að síður eru þessar sýnatökur hluti af eftirliti sem skylt er að framkvæma og eru mikilvægur liður í að tryggja matvælaöryggi,“ segir Katrín.
Katrín segir að stjórnvöld, það er að segja Alþingi og ráðuneyti, hafi hins vegar ákveðið að hér á landi skuli eftirlitsþegar almennt greiða fyrir það eftirlit sem framkvæmt er vegna matvælaframleiðslu. „Það byggir á 25. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995. Opinberir eftirlitsaðilar eins og Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fá því ekki fjármagn frá ríkinu til að greiða fyrir kostnað við þetta eftirlit, sem þeim er þó er skylt að framkvæma.“
„Í matvælaeftirlitsumhverfinu eru einhver dæmi um að stjórnvöld taki ákvörðun um að styðja sérstaklega við tiltekna aðila með því að niðurgreiða eftirlit eða sýnatökur, en það á ekki við í tilfelli þeirrar sýnatöku sem við erum hér að ræða. Slíkur stuðningur eða niðurgreiðsla er þá ákvarðaður á efri stigum, hjá Matvælaráðuneyti,“ segir Katrín ennfremur.