Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fundi sínum í vikunni að leikskólanum Krakkaborg verði komið fyrir í viðbyggingu 2 í Flóaskóla og í Skólatúni til bráðabirgða á meðan á framkvæmdum á húsnæði leikskólans í Þingborg stendur.
Leikskólanum á Þingborg var lokað á dögunum eftir að myglusveppur greindist í húsinu. Leikskólinn hefur verið starfræktur í félagsheimilinu Félagslundi frá því Krakkaborg í Þingborg var lokað.
Miðað er við að leikskólinn opni í Flóaskóla eftir miðja næstu viku og gert er ráð fyrir því að félagsmiðstöðin verði í Þjórsárveri. Sveitarstjórn mun óska verður eftir umsögn frá skólaráði Flóaskóla, foreldraráði leikskólans og æskulýðs- og tómstundanefnd um allar þessar breytingar.
Á sama fundi var samþykkt að fenginn verði verktaki til að grafa frá leikskólanum í Þingborg til að kanna ástand á sökkli og dreni og bora ofan í gólfplötuna til að kanna ástand hennar.
Að því gefnu að sökkull sé í lagi verði farið í að hreinsa út gólfefni, slípa gólfin og þurrka húsið. Stefnt er að því að framkvæmdir við húsið hefjist sem fyrst og að þeim verði lokið innan eins árs.