Krapaflóð er á leið niður Eystri-Rangá og er nú komið niðurfyrir Tungufoss. Áin er kolmórauð og hefur rennsli í henni þrefaldast á stuttum tíma.
Vatnshæðarmælir er við Tungufoss og var rennslið í ánni 11 m3/sek kl. 17:30. Tíu mínútum síðar var rennslið komið í rúmlega 34 m3/sek.
Líklega er um að ræða brostna klakastíflu en íbúar í nágrenni árinnar sem sunnlenska.is hefur rætt við segja það ótrúlegt í þessu tíðarfari. Lítill snjór sé á hálendinu og ekkert hafi skafið. Engar jarðhræringar eru merkjanlegar í Tindfjallajökli.
Grettir Rúnarsson í Svínhaga hefur fylgt flóðinu eftir nú síðdegis. Hann var staddur við Reynifellsbrú, fyrir ofan Keldur, þegar sunnlenska.is ræddi við hann. Grettir segir flóðið fara mjög hægt yfir. Mikill klaki og krapi sé í ánni og hún sé kolmórauð sem er mjög óvenjulegt.