Litla-Laxá í Hrunamannahreppi ruddi sig með tilþrifum í dag og fylgdist fólk með krapaflóðinu fara niður ána við Gröf og niður Torfdalinn um klukkan 15:30.
Engin mannvirki voru í hættu að sögn Sigmundar Brynjólfssonar, framleiðslustjóra í límtrésverksmiðjunni, en það vantaði rúman metra upp á það að áin flæddi yfir bakka sína fyrir ofan verksmiðjuna.
Erla Björg Arnardóttir, leiðsögumaður, fylgdist með á hinum bakkanum og að hennar sögn hækkaði hratt í ánni, um rúman metra á aðeins fimmtán mínútum. Þegar flóðtoppurinn var farinn niður ána sjatnaði aðeins en rennslið er ennþá talsvert og ísinn þéttur.
Litla-Laxá rennur í Stóru-Laxá, rétt fyrir ofan ármótin í Hvítá. Mikill ís er á Stóru-Laxá og er líklegt að hún muni sömuleiðis sprengja af sér ísinn verði hlýindin viðvarandi.
Myndböndin hér fyrir neðan eru frá Sigmundi Brynjólfssyni.