Krefjast íbúafundar vegna íþróttaaðstöðu bæjarins

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Undirskriftalisti er nú í gangi í Hveragerði þar sem þess er krafist að bæjarstjórn haldi borgarafund varðandi íþróttaaðstöðu bæjarins.

Það er Íris Brá Svavarsdóttir sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni en til þess að knýja fram borgarafund þurfa 10% þeirra sem eiga kosningarétt í Hveragerði að skrifa undir. Því þarf að safna 250 undirskriftum fyrir 16. nóvember. Allt útlit er fyrir að það náist en í dag höfðu 242 skrifað undir rafrænt en einnig er undirskriftum safnað skriflega.

„Í ljósi umræðna í bæjarfélaginu má sjá og heyra að stór hluti Hvergerðinga hefur töluverðar áhyggjur af öryggi barna sinna vegna ákvörðunar bæjarráðs um bráðabirgða íþróttaaðstöðu fyrir neðan þjóðveg. Einnig er ástæða til umræðu um að endurskoða fyrirhugaðar framkvæmdir við upphitaðan og upplýstan gervigrasvöll og hvort sú fjárfesting eigi að vera ofar á forgangslista en önnur varanleg íþróttaaðstaða,“ segir í greinargerð með undirskriftarsöfnuninni.

Fyrri greinAllt til reiðu í Vallaskóla komi til rýmingar
Næsta greinSkjálfti í Þórsurum á lokakaflanum