Samstöðuhópur um heilbrigðis atvinnumál og á Suðurlandi tekur af heilum hug undir þær kröfur sem komið hafa fram um að eldsneytisverð verði lækkað og hvetur þingmenn sína til að leggja því máli lið.
Samstöðuhópinn skipa ýmsir aðilar hagsmunasamtaka og stéttarfélaganna á Suðurlandi sem láta sig velferð íbúa Suðurlands máli skipta. Hópurinn hefur til dæmis verið virkur í baráttu gegn ótæpilegum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu á Suðurland.
Hópurinn fundaði í síðustu viku en á fundinum komu fram áhyggjur fólks af síhækkandi eldsneytisverði og lamandi áhrifum þess á félagslega stöðu, til dæmis að sækja heilbrigðisþjónustu, menningu og menntun.
„Sumar stærstu atvinnugreinarnar á Suðurlandi eru mjög háðar orku, olíu og bensíni og ekki síður raforku. Hvorutveggja fer ört hækkandi og nú er komið að ystu sársaukamörkum. Landbúnaður og ylrækt taka á sig sífellt þyngri byrðar af hækkandi raforkuverði og jafnframt eykst flutningskostnaður,“ segir í ályktun fundarins.
Samstöðuhópurinn álítur að lækkun eldsneytisverðs sé eitt af brýnustu hagsmunamálum Sunnlendinga sem og annarra landsmanna. „Hækkandi eldsneytisverð dregur úr möguleikum fólks að sækja sér nauðsynlega þjónustu eða menntun og menningu. Ferðalög dragast saman sem kemur niður á ferðaþjónustu. Ríkisstjórnin hefur það á valdi sínu að draga úr hækkun eldsneytiskostnaðar með því að draga úr álögum sínum þó ekki væri nema tímabundið meðan þessi alda gengur yfir.“
Hópurinn segir olíufélögin líka geta lagst á áranar með landsmönnum og lækkað álagningu sína. Miðað við þá afslætti sem olíufélögin veita stórum hópum viðskiptavina sinna má vera ljóst að svigrúm sé til lækkunar almennt. Hópurinn höfðar til samfélagslegrar ábyrgðar eigenda olíufélaganna og að þeir stilli hagnaðarkröfum sínum í hóf meðan þetta ástand varir.
Það er krafa samtöðuhópsins að þeir aðilar sem mesta möguleika hafa á að létta byrðar fólks noti það svigrúm svo sem flestir fái notið.