Krefst þess að ríkisstjórnin dreifi byrðunum

Fundur kjördæmaráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi var haldinn á Eyrarbakka í dag. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi krefst þess að ríkisstjórnin dreifi byrðunum þannig að þeir sem misst hafa vinnuna beri ekki mestan kostnað í heimsfaraldri.

„Heimilin búa við rekstrarvanda líkt og fyrirtæki sem tekið hafa skellinn.“ Þetta kemur fram í eftirfarandi ályktun kjördæmisráðsins sem samþykkt var á fundi á Eyrarbakka í dag.

Atvinnuleysi
Atvinnuleysi á Suðurnesjum mælist nú 18% og 7,5% á Suðurlandi með tilheyrandi tekjufalli heimila og sveitarfélaga. Kjördæmisráðið krefst þess að allir þeir sem misst hafa vinnuna vegna covid-19 fái 6 mánaða tekjutengdar atvinnuleysisbætur og horfið verði frá því óréttlæti að skilja þá eftir sem misstu vinnuna í upphafi faraldursins.

Þá er mikilvægt að ríkið í samstarfi við sveitarfélög og fyrirtæki komi af stað atvinnuskapandi átaksverkefnum fyrir atvinnuleitendur þar til atvinnulífið hefur náð sér á strik.

Sveitarfélög
Nauðsynlegt er að ríkisvaldið styrki jöfnunarsjóð sveitarfélaga og bregðist við lægri útsvarstekjum með mótframlögum þannig að sveitarfélög geti sinnt lögbundinni þjónustu við börn og fatlaða einstaklinga ásamt annarri nærþjónustu við íbúa. Aðgerðarleysi stjórnvalda sýnir ekki aðeins áhugaleysi á stöðu þeirra sem þurfa á þjónustu sveitarfélaga að halda heldur undirstrikar arfaslæma byggðastefnu.

Heilbrigðisstofnanir
Heilbrigðisstofnanirnar í Suðurkjördæmi, bæði Suðurnesja og Suðurlands eru fjársveltar og hafa ekki fengið fjárframlög í takti við fólksfjölgun í kjördæminu. Heilsugæsla fyrir alla hlýtur að vera sjálfsögð í velferðarríki vilji það standa undir því nafni. Einnig er mikilvægt að tryggja öruggt sjúkraflug til Vestmannaeyja og Hafnar.

Nýsköpun, menntun og umhverfismál
Ferðaþjónustan í Suðurkjördæmi hefur orðið fyrir miklu höggi. Leggja verður höfuðáherslu á sköpun atvinnutækifæra bæði fyrir karla og konur með nýsköpun og menntun. Menntunartækifæri verða að vera aðgengileg svo fólk fái tækifæri til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Íslenskukennsla atvinnulausra innflytjenda er þar á meðal.

Aukin grænmetisframleiðsla og skógrækt til að vinna gegn loftslagsvá af mannavöldum, er eitt af yfirlýstum markmiðum stjórnvalda. Forsenda þess að nálgast það markmið er stóraukin starfsmenntun á sviði umhverfis og garðyrkju og stuðningur við nýsköpun og vöxt. Stofna þarf sérstakan starfsmenntaskóla á framhaldsskólastigi að Reykjum í Ölfusi og stórefla starfsmenntun í samvinnu við fagfélög og fyrirtæki.

Hagkvæmar fjárfestingar
Margar brýnar og hagkvæmar fjárfestingar bíða fjármögnunar í kjördæminu hvort sem er fjárfestingar í menntun, velferð, samgöngum eða annarri uppbyggingu. Nefna má dæmi um ýmis viðhaldsverkefni á vegum ríkisins, lagfæringar á innsiglingu við Þorlákshöfn, sjóvarnargarð við Njarðvíkurhöfn, hjúkrunar- og dvalarrými fyrir aldraða og samgöngubætur sem má flýta til að skapa störf strax. Tryggja verður reglulegar samgöngur til Vestmannaeyja og eyða óboðlegri óvissu í þeim efnum.

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi krefst aðgerða strax sem skapa atvinnutækifæri og græna uppbyggingu á sama tíma og staðið er vörður um velferðina og heimilin.

Fyrri greinFimmta tapið á heimavelli í sumar
Næsta greinSelfyssingar náðu í sín fyrstu stig