Krílafló opnar á Selfossi

Sverrir Tómas, Pálína og Kristbjörg í Krílafló við Eyraveg á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Næstkomandi sunnudag mun básaleigan Krílafló opna að Eyravegi 21 á Selfossi. Í Krílafló getur fólk komið og keypt notuð og vel með farin barnaföt og barnadót – eða selt sambærilegar vörur sjálft.

Að Krílafló standa Pálína Agnes Baldursdóttir og Sverrir Tómas Bjarnason, ásamt móður Sverris, Kristbjörgu St. Gísladóttur.

„Þegar við Sverrir urðum ólétt síðasta sumar fórum við að kaupa hitt og þetta sem kæmi til með að vanta. Þá nýttum við okkur þetta „concept“ mikið og fannst þetta vanta á Suðurlandið. Kristbjörg var ekki lengi að skrá sig í að vilja taka þátt í þessu ævintýri, þar sem hún hefur mest verið að vinna í burtu frá Selfossi í þessi 20 ár sem hún hefur búið hérna og sá þarna frábært tækifæri til að fara að færa sig heim,“ segir Pálína í samtali við sunnlenska.is.

Jólafríið fór í undirbúing
„Undirbúningurinn byrjaði í október með mikilli rannsóknarvinna þar sem það var verið að leita að húsnæði og hver gæti gert heimasíðuna með okkur og alls konar hlutir sem þurfti að skoða vandlega. Það var í mjög mörg horn að líta.“

„Við fengum svo lyklana að húsnæðinu í byrjun desember og var þá strax byrjað að vinna á fullu. Við náðum að gera mjög margt sjálf, en við fengum líka hjálp og leiðsögn sem auðveldaði okkur að framkvæma þetta. Allt frá básum, afgreiðsluborði og málningarvinnu þökk sé fólkinu í kringum okkur. Jólafríið hjá mörgum var vinna,“ segir Pálína.

„Í stuttu máli þá virkar þetta þannig að fólk getur leigt sér bás hjá okkur í gegnum heimasíðuna okkar og selt í honum notuð og ný barnaföt. Oft er fólk með svo mikið af barnafötum og sumir komast ekki yfir að nota þau öll þannig að þetta býður upp á að hægt sé að setja fötin í notkun hjá einhverjum öðrum og fá pening fyrir.“

Opið fyrir bókanir
„Vefsíðan mun opna fyrir bókanir seinni partinn í dag, 19. janúar. Um næstu helgi getur fólk sem hefur bókað sér bás komið með fötin sín og stillt sínum bás upp. Dyrnar verða svo opnar sunnudaginn 24. janúar fyrir almenning sem vill kaupa barnaföt, notuð og ný fyrir lítinn pening. Notað og nýtt fær annað líf.“

Pálína segir að viðtökurnar frá fólki hafi verið ótrúlega góðar þegar það frétti að tilstæði að opna básaleigu. „Bæði frá þeim sem þekkja hvernig svona virkar og eru spennt að fá þetta á Suðurlandið og svo líka bara frá þeim sem hafa aldrei heyrt um svona og eru ótrúlega spennt að fá að prófa. Þær viðtökur sem við höfum fengið sýnir að það hefur vantað svona hérna á Selfossi og við höfum því reynt að vanda okkur eins og við getum og vonandi verður fólk bara ánægt með þessa búð hjá okkur.“

Opið verður í Krílafló alla daga, flesta daga frá klukkan 11 til klukkan 18, nema á fimmtudögum verður opið til 20 og um helgar verður opið til kl. 15.

Einfalt og skilvirkt fyrirkomulag
Þeir sem hafa áhuga á að bóka bás gera það í gegnum heimasíðu Krílafló, www.krilaflo.is. „ Þú bókar bás og hvað þú vilt hafa hann lengi og síðan býrðu til þinn aðgang á heimasíðunni okkar. Svo skráir þú inn það barnadót sem þú vilt selja og verðleggur það. Það fer svo sjálfkrafa inn í sölukerfið okkar og svo kemur þú bara þegar þú getur með barnadótið, færð hjá okkur strikamerki og getur farið að stilla upp básnum þínum.“

„Svo þegar leigutímabilið þitt er búið þá einfaldlega leggjum við inn á þig fyrir því sem þú ert búinn að selja. Og ef eitthvað er óselt þá sækirðu það að loknu leigutímabilinu. Einnig er alltaf hægt að hringja bara í okkur í síma 868-0080 og þá getum við hjálpað til með að leigja bás eða græja það bara með símgreiðslu. Eða bara að koma við hjá okkur og þá finnum við bás fyrir þig og græjum þetta á staðnum,“ segir Pálína.

Mikil tilhlökkun
„Við hlökkum til að byrja þetta því undirbúningurinn er búinn að vera krefjandi en mjög skemmtilegur. Þetta er búið að vera gott námskeið sem við komum til með að búa að og eigum eftir að nota í fleiri verkefni. Vonandi mun þetta bara ganga upp og fólk verði ánægt þá getur þetta verið hluti af Selfoss samfélaginu í langan tíma,“ segir Pálína að lokum.

Fyrri greinFjórir undir áhrifum við stýrið
Næsta grein„Þakklát og spennt fyrir þessu samstarfi“