Kristín einnig sett sýslumaður í Vestmannaeyjum

Dómsmálaráðherra hefur sett Kristínu Þórðardóttur, sýslumanninn á Suðurlandi, tímabundið sem sýslumann í Vestmannaeyjum, frá 1. október til og með 30. september 2024.

Tilefni setningarinnar er beiðni Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, sýslumanns í Vestmannaeyjum, um lausn frá embætti. Kristín mun gegna báðum embættunum á framangreindu tímabili.

Í tilkynningu frá Dómsmálaráðuneytinu segir að sú ákvörðun að setja sýslumann yfir tvö embætti samræmist áherslum ráðherra í málefnum sýslumanna, þar á meðal að unnið verði að því að fella niður áhrif umdæmismarka gagnvart almenningi.

Fyrri greinEldsneytissölu hætt við Litlu kaffistofuna
Næsta greinSnæfríður á topp tíu í Evrópu