Kristín Þórunn ráðin sóknarprestur í Skálholti

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir.

Valnefnd Skálholtsprestakalls hefur valið sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur í starf sóknarprests í Skálholti og hefur biskup Íslands staðfest þá ráðningu.

Sr. Kristín Þórunn er fædd í Neskaupsstað árið 1970 þar sem foreldrar hennar, sr. Tómas Sveinsson og Unnur Anna Halldórsdóttir djákni þjónuðu en hún er elst af fimm börnum þeirra. Kristín ólst að mestu leyti upp í Reykjavík þaðan sem hún lauk stúdentsprófi og cand. theol. gráðu frá Háskóla Íslands.

Hún sótti framhaldsnám í guðfræði og trúarbragðafræði í Svíþjóð og Bandaríkjunum og vígðist til þjónustu héraðsprests í Kjalarnessprófastsdæmi árið 1998. Hún hefur einnig sinnt prestsþjónustu í Garðaprestakalli, Laugarnesprestakalli, í lúthersku og anglikönsku kirkjunni í Genf, og nú síðast í Egilsstaðaprestakalli.

Sr. Kristín Þórunn er gift sr. Árna Svani Daníelssyni, samskiptastjóra Lútherska heimssambandsins og þau eiga fjögur uppkomin börn og tvö sem eru ennþá heima við.

Fimm umsóknir bárust um starfið og er miðað við að Kristín hefji störf þann 1. september næstkomandi.

Fyrri greinStórsigur gegn Haukum-U á Ragnarsmótinu
Næsta greinVindur í eigu þjóðar