Selfyssingurinn Kristinn Eiríksson, skurðlæknir, varði doktorsritgerð í læknisfræði við Háskólann í Uppsala, Svíþjóð, þann 11. maí síðastliðinn.
Viðfangsefni ritgerðarinnar er kviðsjáraðgerðir á lifur með höfuðáherslu á gasþrýsting koltvísýrings og á nýjar aðferðir við skurðaðgerð á lifur, undir heitinu: ”Technical Aspects of Laparoscopic Liver Resection. An Experimental Study”.
Leiðbeinendur að verkefninu voru Dr. Dag Arvidsson dósent við Háskólann í Uppsala og Dr. Sten Rubertsson prófessor við sömu stofnun. Andmælandi var Dr. Björn Edwin prófessor við Háskólann í Osló.
Notkun kviðsjáraðgerða hefur aukist á sviði meltingafærasjúkdóma en slíkar aðgerðir á lifur hafa verið lengi í þróun, vegna flókinnar líffærafræði og hættu á fylgikvillum svo sem blæðingum og gallleka.
Niðurstöður rannsóknanna sýndu minni blæðingu við notkun á hærri gasþrýstingi en með nokkuð aukinni hættu á blóðreki af völdum koltvísýrings. Ný hátækniáhöld sem hafa rutt sér til rúms á markaðnum gáfu góðan árangur við rannsóknina.
Kristinn hefur búið og starfað erlendis í 15 ár. Hann er sonur Hrefnu Kristinsdóttur og Eiríks Þórs Sigurjónssonar. Kristinn býr í Osló ásamt sambýliskonu, Agnete Thorne. Börn á Íslandi eru Hrefna Rún Kristinsdóttir, Viktoría Edwald Kristinsdóttir og Atli Þór Edwald Kristinsson.