Kristrún fundar á Suðurlandi

Kristrún Frostadóttir, alþingismaður, er á ferðinni um Suðurland og heldur fjölda opinna fundi með fólki í þeirra heimabyggð.

Fundirnir eru hluti af fundaferð Kristrúnar um landið undir yfirskriftinni Samræða um framtíðina og eru opnir öllu áhugafólki um landsins gagn og nauðsynjar.

„Ég kom bratt inn í pólitíkina fyrir síðustu kosningar og varði tímanum að mestu í Reykjavík. Nú er ég að heimsækja byggðarlög víða um land, hlusta á sjónarmið íbúanna og bjóða til samræðu um framtíðina,“ segir Kristrún.

Fyrirkomulag fundanna verður afslappað þar sem Kristrún leitast fyrst og fremst eftir samtali við fólk og ólíkum sjónarmiðum. Tilgangurinn er að sækja efni og innblástur fyrir þingstörfin á næstu misserum.

„Ég næ ekki alveg öllum fundarstöðunum á Suðurlandi á einni langri helgi. Maður þarf að mæta í þingið eftir helgina. En ég auglýsi fleiri fundi á Suðurlandi síðar,“ segir Kristrún.

Á föstudag fundar Kristrún á Kaffi Horninu á Höfn kl. 12:00, á Hótel Klaustri kl. 17 og í Súpufélaginu í Vík kl. 20. Á laugardag eru fundir á Eldstó á Hvolsvelli kl. 11 og Kaffi Grund á Flúðum kl. 14. Fundi sem átti að vera í Þorlákshöfn síðdegis er frestað vegna úrlitaleiksins í bikarkeppni karla í körfubolta. Á sunnudag verður fundur í Gimli á Stokkseyri kl. 14 og í Skyrgerðinni í Hveragerði kl. 17.

Fyrri greinHSK/Selfoss sigraði á MÍ 11-14 ára – Hjálmar setti mótsmet
Næsta greinÖruggt hjá Ægi – KFR náði í stig