Kríuvarpið ekki svipur hjá sjón

Kríuvarpið í Vík í Mýrdal, sem um margra ára skeið var jafnvel talið það stæsta á Íslandi, er nú ekki svipur hjá sjón. Lundinn á líka undir högg að sækja.

Þórir N. Kjartansson í Vík fylgist vel með fuglalífinu við þorpið. Hann segir færri kríur í Vík en áður hefur sést og miðað við það sé allt útlit fyrir að sandsílastofninn sé lítið að braggast.

„Tilhugalíf kríunnar hefur staðið yfir undanfarna daga og þá ætti hún að vera fljúgandi með síli aftur á bak og áfram en það er varla nokkurn fugl að sjá, berandi síli í goggnum,“ sagði Þórir í samtali við sunnlenska.is. Hann bætti við að hætt sé við að þetta viti líka á enn eitt hörmungarárið hjá lundanum en sandsíli og loðna er aðalfæða lundans.

Fyrir nokkru var skipuð nefnd til að athuga hver væri orsök afleitrar afkomu lunda og annarra sjófugla væri og Þórir segir að niðurstaðan hafi verið sú sem allir vissu og enga rannsókn hefði þurft til; sandsílið var nánast horfið.

„Vonandi skipar nýr umhverfisráherra nefnd til að rannska hvers vegna sandsílið er horfið. En í þá nefnd má alls ekki setja neinn fiskifræðing frá Hafró,“ sagði Þórir að lokum.

Fyrri greinFrábærar niðurstöður í ytra mati skólans
Næsta greinUngir bíókóngar á Selfossi