„Kröfurnar um skilyrðislausa hollustu eru alltaf að aukast“

Lífræni bændamarkaðurinn á Engi í Biskupstungum opnaði nú um helgina. Þetta er fimmta árið sem markaðurinn er starfræktur, en hann verður opinn allar helgar í sumar.

„Það er búið að vera mjög mikið að gera síðan við opnuðum klukkan tólf á föstudaginn,“ segir Ingólfur Guðnason en hann og eiginkona hans, Sigrún Elfa Reynisdóttir eru eigendur garðyrkjustöðvarinnar á Engi sem staðsett er í Laugarási.

„Á markaðnum er núna aðallega þetta venjulega gróðurhúsagrænmeti eins og til dæmis tómatar og kirsjuberjatómatar. Við erum með ýmsar tegundir af grænmeti; eggaldin, kúrbít, grænkál, hnúðkál og ýmsar salattegundir. Svo erum við að rækta gulrætur sem eru komnar í sölu núna og eru mjög vinsælar,“ segir Ingólfur en auk gulrótanna eru kirsjuberjatómatarnir og kryddjurtirnir það grænmeti sem er hvað vinsælast á markaðnum.

Kalt vor hefur áhrif á uppskeruna
„Við erum með grænmeti í ræktun sem fer að tínast inn fljótlega eins og til dæmis blaðlauk, vorlauk og sellerí. Svo er von á jarðarberjum og fleiri berjum sem við erum að reyna að rækta eins og til dæmis kirsuberjum. Það hefur gengið ágætlega að rækta þau. Vorið er búið að vera kalt svo að blómgunin hefur ekki gengið sem skyldi, en það eru bara þannig áraskipti á þessu,“ segir Ingólfur.

Hann bætir við að svona kalt vor hægi á allri ræktun í óupphituðu gróðurhúsunum en hefur engin sérstök áhrif í upphituðu gróðurhúsunum. „Við gátum byrjað seinna með ýmsar tegundir og útiræktuninni seinkar eitthvað miðað við venjulegt ár almennt vegna þess hversu kalt vorið var, en það stendur til bóta,“ segir Ingólfur og brosir.

Tvö glergróðurhús eru á Engi auk átta plastgróðurhúsa, sem eru notuð undir berjaræktun og grænmeti. Einnig eru matjurtagarðar þar sem kálið er ræktað.

Hátt í sextíu tegundir af grænmeti
Ingólfur segir að vinsældir markaðarins séu alltaf að aukast. „Við leggjum mesta áherslu á það sem við ræktum sjálf og erum með lífræna ræktun í öllu og reynum að hafa margar tegundir. Það hefur verið þannig síðustu árin að við erum með allt í allt 50 til 60 tegundir af grænmeti sem við seljum úr eigin ræktun.“ Á markaðnum má einnig fá hunang sem er ræktað í Laugarási og egg sem hænurnar á Engi verpa, en þær fá að ganga lausar um svæðið. Þá verður hið sívinsæla völundarhús einnig opið í sumar en það er úr trjágróðri og er um eittþúsund fermetrar að flatarmáli.

Að sögn Ingólfs eru þau hjónin alltaf að gera einhverjar tilraunir með nýjar tegundir „Við erum til dæmis að gera tilraunir með nýjar salattegundir og nýjar tegundir af kryddjurtum. Það skilar sér í söluna um leið og það kemur,“ segir Ingólfur og bætir því við að þessi ræktun fari að sýna sig fljótlega.

Ingólfur nefnir silfurblöðku sem dæmi um nýja tegund sem þau eru að rækta. „Silfurblaðka er skemmtileg tegund með mörgum litum. Einnig höfum við verið að gera nokkrar tilraunir með austurlenskt grænmeti og svo höfum við verið að rækta rautt spínat sem er væntanlegt fljótlega. Við höfum útbúið salatblöndur úr mörgum tegundum og notum til dæmis í hana morgunfrú og skjaldfléttu sem fólk kannast frekar við sem sumarblóm en eru mjög skemmtileg í grænmetissalöt,“ segir Ingólfur.

Vantar fleiri lífræna framleiðendur
Ingólfur segir að þau fái mikið af gestum úr sumarbústöðum í uppsveitum Árnessýslu. „Svo kemur talsvert af fólki frá Reykjavík að versla, enda er hér hægt að fá mikið úrval af lífrænt ræktuðu grænmeti á eina og sama staðnum. Kröfurnar um skilyrðislausa hollustu í grænmeti eru alltaf að aukast og kannski er vandamálið fyrst og fremst að það vantar fleiri framleiðendur til að sinna þessari þörf,“ segir Ingólfur. Hægt er að fá grænmeti og kryddjurtir frá Engi í verslunum í Reykjavík og víðar.

Hjónin á Engi hafa verið í sambandi við nokkur veitingahús í Reykjavík sem þau framleiða grænmeti fyrir. „Það er mjög gaman þegar veitingamenn koma hingað í heimsókn á vorin og spá og spekúlera hvað þá vantar og hversu vel við getum sinnt þeirra þörfum. Þeir gera miklar kröfur og koma oft með skemmtilegar hugmyndir um nýjar tegundir í ræktun,“ segir Ingólfur en þau fái margar hugmyndir frá veitingamönnunum.

Hann segir að norrænt grænmeti sé mjög mikið í tísku í veitingabransanum núna og er það þá helst notað sem skreytingarefni, gjarnan lítið sem ekkert eldað, þannig að það hafi ferskleika og hollustuímynd.

Sem fyrr segir verður markaðurinn opinn allar helgar í sumar frá föstudegi til sunnudags klukkan 12 til 18. Um næstu helgi verður löng helgi en þá er einnig opið á þjóðhátíðardaginn, mánudaginn 17. júní.

Fyrri greinHS veitur í nýju húsnæði
Næsta greinHellisheiðarvirkjun langt undir væntingum og getu