Krónan hefur stefnt Sveitarfélaginu Árborg og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands vegna ákvörðunar um að brauðmeti í brauðbar verslunar Krónunnar á Selfossi skuli varið með umbúðum.
RÚV greinir frá þessu.
Heilbrigðiseftirlitið gerði athugasemd við að óvarið brauð væri á boðstólum í versluninni og að ekkert hindraði að viðskiptavinir hnerruðu eða hóstuðu yfir brauðið eða meðhöndluðu það með berum höndum.
Stefnan var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands á miðvikudag og lögð fram í bæjarráði Árborgar í gær.
Í stefnunni kemur fram að svokallaðir brauðbarir hafi verið vinsælir hjá neytendum og skilað auknum tekjum fyrir verslanir Krónunnar. Svipað fyrirkomulag sé þekkt í nágrannalöndunum en hugsunin sé sú að leggja áherslu á að brauðmetið sé ferskt og að viðskiptavinir sjái að það sé tiltölulega nýbakað. Fyllsta hreinlætis sé gætt og sérstakur starfsmaður beri ábyrgð á á þrifum og meðhöndlun og umgengni viðskiptavina.
Í stefnunni eru jafnframt rakin samskipti Krónunnar og starfsmanna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Þau hófust með heimsókn eftirlitsmanna í Krónuna um miðjan ágúst þar sem gerð var athugasemd við að óvarið brauð væri á boðstólum og inni á lager verslunarinnar. Verslunin fékk tvær vikur til að gera viðeigandi úrbætur.
Eftirlitsmenn komu síðan aftur í heimsókn í október. Eftir þá heimsókn ítrekaði heilbrigðiseftirlitið ábendingu sína og bætti við að óvarin brauð, sem væru til sölu í versluninni, yrðu tekin úr sölu við næsta eftirlit.
Í byrjun nóvember kom eftirlitið aftur en þá höfðu starfsmenn Krónunnar gripið til þess ráðs að setja brauðið í poka á meðan heimsókninni stóð. Krónan ákvað að lokum að beygja sig undir vilja eftirlitsins og breytti innréttingum í samræmi við kröfur heilbrigðiseftirlitsins.
Í stefnunni er því haldið fram að heilbrigðiseftirlitið hafi tekið íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að nauðsynjalausu. Engar tilkynningar hafi borist um að matvæli hafi spillst, neytendur skaðast, matvæli mengast eða annað í þeim dúr. Þá er jafnframt bent á hvernig grænmeti sé stillt upp. Það sé yfirleitt á svokölluðum sjálfsafgreiðslubörum.
Verslunin geri kröfur um bætur vegna ákvörðunar heilbrigðiseftirlitsins. Breytingar á versluninni hafi til að mynda kostað rúmar 350 þúsund krónur og þá sé ónefnt sölutapið sem verslunin hafi orðið fyrir og sú mikla vinna sem farið hafi fram hjá starfsmönnum í tengslum við málið.