„Krossum fingur og vonum að ekkert klikki“

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Aldrei hefur verið notað jafn mikið heitt vatn hjá Selfossveitum eins og þessa dagana. Íbúar eru hvattir til að fara skynsamlega með heita vatnið.

„Það má ekkert klikka hjá okkur svo að við þurfum ekki að grípa til lokana á sundlaugum. Við biðlum til íbúa að fara skynsamlega með heita vatnið, til dæmis að loka frekar gluggum heldur en að kynda húsin sín í botn með opna glugga og láta útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á,“ sagði Tómas Ellert Tómasson, formaður framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

„Það eru að fara langt yfir 200 sekúndulítrar inn á kerfið og flestar borholur eru að vinna á fullum afköstum. Ný borhola sem var virkjuð í Jórutúni á Selfossi í haust má segja að bjargi okkur fyrir horn núna, en hún nær að anna hverfinu fyrir utan á á Selfossi,“ bætir Tómas Ellert við.

Ný borhola er í vinnslu í Ósabotnum en hún kemst ekki í gagnið fyrr en næsta vetur. „Því krossum við fingur og vonum að ekkert klikki í kerfinu hjá okkur í þessum frostakafla,“ sagði Tómas Ellert að lokum.

 

Fyrri greinKyndilmessustund í Húsinu
Næsta greinDatt í fangið á Jóni Inga með pilsið á hælunum