Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur keypt 60 prósenta hlut í Sláturhúsinu á Hellu og einnig 60 prósenta hlut í Kjötbankanum í Hafnarfirði af Þorgils Torfa Jónssyni og tengdum aðilum.
Fyrir á Sláturhúsið á Hellu 40 prósenta hlut í Kjötbankanum. Kaupverð er ekki gefið upp. Kaupin voru tilkynnt Samkeppnisstofnun í gær og eru þau háð samþykki stofnunarinnar. Bændablaðið greinir frá þessu.
Ágúst Andrésson, forstöðumaður Kjötafurðastöðvar KS, segir að engar breytingar verði á högum almenns starfsfólks fyrirtækjanna. „Ekki hjá almennu starfsfólki en auðvitað verða ákveðnar breytingar í yfirstjórn.“ Stefnt er að því að efla verulega slátrun og úrvinnslu á nautgripa- og hrossaafurðum og auka enn frekar þjónustu við bændur á Suðurlandi. Það mun leiða af sér fjölgun starfa í nánustu framtíð.
Hvað varðar slátrum á hrossum segir Ágúst að næst á dagskrá sé að fá útflutningsleyfi á Rússlandsmarkað fyrir Sláturhúsið á Hellu. „Við munum svo nýta sambönd okkar í Rússlandi og hið nýstofnaða fyrirtæki okkar, IceCorpo, til markaðssetningar þar. Sláturhúsið á Hellu hefur ekki verið stór aðili í hrossaslátrun en Suðurlandi er hins vegar mikið hrossasvæði. Það er því augljóst að það eru mikil sóknarfæri í þeim efnum. Húsið er vel tækjum búið og hægt að auka umsetningu þar umtalsvert.“
Þorgils Torfi Jónsson, framkvæmdastjóri Sláturhússins á Hellu, segir að í raun hafi ekki staðið til af hans hálfu að selja fyrirtækin. „Þeir [KS] sýndu áhuga og vildu ræða við mig. Ég féllst á það og af því leiddi þessi niðurstaða. Ég var ekki á neinum sölubuxum en af því að það var þessi aðili var ég tilbúinn að hlusta. Einhvern tíma hefði komið að því að ég þyrfti að selja og ef til þess kæmi vildi ég helst selja Kaupfélagi Skagfirðinga. Mér er mikið í mun að það sé sterkur aðili sem tekur við rekstrinum, að hann sé í góðum höndum og í góðri sátt við bændasamfélagið, en fáir þekkja betur til bændasamfélagsins en KS. Það réði fyrst og síðast afstöðu minni og niðurstöðu.“
Með samkomulaginu selur Torfi allan sinn hlut í fyrirtækjunum. Þau 40 prósent sem eftir standa í Sláturhúsinu á Hellu eru í eigu á milli 140 og 150 bænda á starfssvæði þess. „Ég mun starfa áfram með KS eins og þeir óska eftir og gera allt sem í mínu valdi stendur til að þessi eigendaskipti gangi eins vel fyrir sig og frekast er kostur. Á einhverjum tímapunkti mun ég síðan draga mig í hlé en það er óráðið hvenær það verður,“ segir Torfi.