Kúabændur óánægðir með árgjald

Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi mótmælir harðlega upptöku árgjalds fyrir skýrsluhaldsforritið Huppu.

Félagsráðið fundaði í Björkinni á Hvolsvelli í síðustu viku. Á fundinum kom m.a. mikil óánægja með upptöku árgjalds fyrir skýrsluhaldsforritið Huppu. Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:

„Félagsráðsfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Björkinni, Hvolsvelli 4. okt. 2011 mótmælir harðlega upptöku árgjalds fyrir skýrsluhaldsforritið Huppu.

Kúabændur greiða um eða yfir 50% alls búnaðargjalds sem innheimt er af bændum. Af búnaðargjaldi sem innheimt er af kúabændum fá Bændasamtök Íslands rúm 29%. Fundurinn telur að Bændasamtökin þurfi að sýna fram á, að allir þeir fjármunir nýtist til þjónustu greinarinnar, áður en farið er að krefja kúabændur um frekari gjaldtöku fyrir þjónustu samtakanna.“

Fyrri greinHraunkot situr sem fastast á toppnum
Næsta greinKostnaður lækkar um tvo milljarða