Kúabændur safna fyrir beinþéttnimæli

Fulltrúar kúabænda hjá Mjólkursamsölunni komu nýlega með þá hugmynd að setja á markað sérstaka mjólkurfernu til söfnunar á fé til tækjakaupa fyrir Landspítalann og nú þegar er hafin sala á þessari mjólk.

Fimmtán krónur af andvirði fernunnar munu renna til kaupa á beinþéttnimæli fyrir Landspítalann.

„Markmiðið er að selja eina milljón ferna og fimmtán milljónir renni til kaupa á þessu mikilvæga tæki,“ segir Einar Sigurðsson, forstjóri MS aðspurður um söfnuina. Mjólkurfernan sem gefur styrkinn er D-vítamínbætt léttmjólk í svartri fernu með krítuðum skilaboðum.

Á nýju fernunni eru skýrar upplýsingar um átakið, auk skilaboða um mikilvægi mjólkurinnar. Utan útlitsins er varan nákvæmlega eins og sú sem fyrir er sem hverfur af markaði í nokkrar vikur á meðan á þessu söfnunarátaki stendur.

„Með því að kaupa þessa mjólk á sama verði og fyrr, geta neytendur hjálpað til við að styrkja gott málefni og versluninin spilar líka stórt hlutverk í þessari samvinnu,“ segir Einar.

Fyrri greinSigrún valin sveitarlistamaður ársins
Næsta greinNM grunnskólasveita haldið á Selfossi