Kvaðir á frekari framleiðslu

Bæjarstjórn Ölfuss hefur fallist á samning um tveggja ára starfsleyfi fiskþurrkunarverksmiðju Lýsis í Þorlákshöfn með ákveðnum kvöðum um að fyrirtækið færi starfsemi sína.

Fyrirtækið óskaði eftir framlengingu á starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Sveitarfélagið leggur ákveðnar forsendur fyrir samningnum um leyfið, svo sem að ákvörðun um framtíðar staðsetningu fyrirtækisins liggi fyrir ekki síðar en í mars á næsta ári.

Fari svo að Lýsi hf ákveði að hætta framleiðslu, þarf það að gera það fyrir maílok á næsta ári. Verði hinsvegar tekin ákvörðun um að færa framleiðslu Lýsis hf á nýjan stað vestan Þorlákshafnar, fær fyrirtækið meira svigrúm til undirbúnings flutningsins og þarf ekki að vera farið úr byggðinni í Þorlákshöfn fyrr en um mitt ár 2018.

Þá er í samningsdrögunum kveðið á um að engin þurrkun megi eiga sér stað í lýsisverksmiðjunni í júlí og ágúst, allt þar til þess árs þegar henni verður lokað.

Ekki var full samstaða í bæjarstjórn Ölfuss um málið og greiddi Guðmundur Oddgeirsson, fulltrúi Ö-listans í bæjarstjórn atkvæði gegn því að gengið yrði til umræddra samninga.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri grein„Hefðum átt að ná öðru marki í lokin“
Næsta greinTveir í röð hjá Ægi