Íbúar í grennd við hverasvæðið við Hveramörk í Hveragerði hringdu í lögregluna í gærkvöldi og kvörtuðu yfir hávaða frá borholu á hverasvæðinu.
Samkvæmt lögreglunni eru íbúar í nágrenni hverasvæðisins orðnir langþreyttir á hávaða frá borholunni sem Orkuveita Reykjavíkur rekur.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, sagði í samtali við sunnlenska.is að engar kvartanir hafi borist bæjaryfirvöldum enda bærinn ekki lengur rekstraraðili að hitaveitunni. Aldís segir að hávaðinn hafi ekki farið framhjá neinum í miðbænum.
„Starfsmenn Orkuveitunnar lækkuðu strax í morgun kraftinn í holunni og við það minnkaði hávaðinn. Til framtíðar þurfa þeir síðan að skoða hvernig staðið verður að blæstri og viðhaldi borhola í þéttbýlinu,“ sagði Aldís.