„Já, ég er að fá töluvert af hringingum þar sem fólk er að kvarta undan lausum hundum á samkomum í Sveitarfélaginu Árborg eins og á 17. júní hátíðarhöldunum á Selfossi og á Kótelettunni.
Það er stranglega bannað að vera með lausa hunda á svona samkomum og því verða hundaeigendur að fylgja,“ segir Ragnar Sigurjónsson, hundafangari í Sveitarfélaginu Árborg þegar hann var spurður hvort einhverjar kvartanir hafi borist vegna hundanna.
Óheimilt er að fara með hunda á almennar samkomur í Árborg að því er fram kemur í samþykkt um hundahald í sveitarfélaginu. Gildir þá einu hvort þeir séu í ól eða ekki. Brjóti hundaeigendur gegn samþykktinni geta þeir átt á hættu að leyfi þeirra til hundahalds í sveitarfélaginu sé afturkallað.
Forsvarsmenn hátíðarinnar Sumar á Selfossi bentu á þetta ákvæði í aðdraganda hátíðarinnar í fyrrasumar og tóku hundaeigendur almennt vel í þá ábendingu og skildu fjórfætlingana eftir heima.