Kvarta til Heilbrigðiseftirlitsins

Fyrirhuguð umhleðslustöð á gámasvæði Árborgar mælist illa fyrir hjá íbúum á nærliggjandi sveitabæjum. Þeir vilja að framkvæmdin fari í grenndarkynningu.

Bæjarstjórn hefur hafnað tillögu þess efnis en hyggst kanna málið eftir að frestur til að skila inn athugasemdum til Heilbrigðiseftirlitsins rennur út. Framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Suðurlands segir ekkert að óttast.

Kristján Einarsson í Hraunprýði og María Hauksdóttir í Geirakoti hafa hvatt fólk til að senda Heilbrigðiseftirlitinu, sem fer með starfsleyfisskilyrði, athugasemd en frestur til þess rennur úr þann 27. maí.

Kristján Einarsson sagðist í samtali við Sunnlenska hafa fyrst frétt af áformum um umhleðslustöð fyrir tveimur vikum. Hann segir rakin óþægindi af slíkri starfsemi.

Guðmundur Tryggvi Ólafsson, framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Suðurlands, segir að umhleðslustöð sé einfaldlega útvíkkun á þeirri starfsemi sem nú þegar fer fram. Ósanngjarnt sé að bera stöðina saman við þau óþægindi þegar rusl fýkur af kerrum og pöllum hjá fólki á leið á gámasvæðið.

Umhleðslustöðin er samstarfsverkefni flestra sveitarfélaga á Suðurlandi. Núna er sorpi ekið í móttökustöð SORPU í Gufunesi. Gert er ráð fyrir að spara 40 milljónir með umhleðslu þess í Árborg.

Fyrri greinTvö auðveld gull til Fjólu
Næsta greinAfmæli á Áttahundruð