Í tengslum við Jól í Árborg 2014 verður fjölbreytt dagskrá í gangi um allt sveitarfélagið frá miðjum nóvember til byrjun janúar á nýju ári.
„Við hefjum leik næstkomandi fimmtudag, þann 13. nóvember kl. 18:00 þegar kveikt verður á jólaljósunum verða kveikt og í framhaldinu eru viðburðir um allt sveitarfélagið fram á nýtt ár,“ sagði Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi, í samtali við sunnlenska.is.
„Viðburðurinn á fimmtudaginn verður með hefðbundnu sniði og hefst kl. 17:40. Ungmenni úr félagsmiðstöðinni Zelzíuz spila og syngja sem og Barnakór Selfosskirkju. Skátarnir gefa kakó og jólatorgið við brúarsporðinn verður opið milli klukkan 16 og 20 og þar verður fjölbreyttur jólavarningur í boði. Í tilefni dagsins verða líka flestar verslanir á Selfossi með lengri opnunartíma á fimmtudagskvöldið,“ sagði Bragi ennfremur.
Á Jólum í Árborg mun Jólatorgið verða formlega opnað í Sigtúnsgarðinum laugardaginn 22. nóvember og þann dag verða ljósin kveikt á stóra torgtrénu. Frá 1. til 24. desember verða jólagluggarnir opnaðir við fyrirtæki og stofnanir í bænum og laugardaginn 13. desember koma jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli í bæinn.
Gefið verður út sérstakt viðburðadagatal sem dreift verður í hús á Árborgarsvæðinu með þeim fjölmörgu viðburðum sem í boði verða á jólahátíðinni.