Jólaljósin í Sveitarfélaginu Árborg verða kveikt í dag, fimmtudaginn 16. nóvember kl. 18:00, með hefðbundnum hætti á tröppunum fyrir framan Bókasafnið á Selfossi.
Stutt hátíðardagskrá hefst kl. 17:40 með ávarpi Ástu Stefánsdóttur, bæjarstjóra, tónlistaratriði þar sem Þórir Geir Guðmundsson syngur við undirleik Tómasar Guðmundssonar og söng barna- og unglingakórs Selfosskirkju. Félagar úr Skátafélaginu Fossbúum verða á staðnum og gefa heitt kakó.
Hefð er fyrir því að yngsta afmælisbarn dagsins sem búsett er í Árborg kveiki á jólaljósunum. Það er hann Þorgeir Kristjánsson sem verður 7 ára í dag og mun hann aðstoða starfsmenn sveitarfélagsins við að kveikja á jólaljósunum á slaginu 18:00.
Fjölmargar verslanir á svæðinu hafa opið lengur í kvöld í tilefni dagsins.