Kveikt í gaskútum á fjórum stöðum á Selfossi í nótt

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Undanfarna daga hefur gaskútum verið stolið á nokkrum stöðum af gasgrillum íbúa á Selfossi.

Upp úr miðnætti í nótt brá svo við að kveikt var í gaskútum á víðavangi á fjórum stöðum innan bæjarmarka á Selfossi og skammt utan við bæinn. Lögregla og Brunavarnir Árnessýslu slökktu eldana ásamt því að vegfarandi slökkti einn eld.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að þeir sem komu að slökkvistarfinu hafi sett sig í töluverða hættu við það að nálgast kútana og þó eldarnir hafi verið kveiktir á berangri getur orðið gríðarlegt eldhaf þegar og ef kútur gefur sig. Ljóst er að veruleg hætta skapaðist af þessu, meðal annars vegna sprengihættu.

Lögreglan skorar á alla þá sem hafa einhverjar upplýsingar um málið að koma þeim til lögreglu í síma 444-2000 í tölvupósti á sudurland@logreglan.is eða á Facebook.

Fyrri greinVinnuafl skortir í skógrækt vegna COVID-19
Næsta greinHvergerðingar syngja inn sumarið