Lögregla telur fullvíst að um íkveikju hafi verið að ræða þegar eldur kom upp í hjólhýsi sem stóð undir húsvegg við Gagnheiði 9 á Selfossi í kvöld.
Litlu munaði að eldurinn næði að læsa sig í húsið en í því er bílaverkstæði og trésmiðja. Útkallið barst um kl. 21 en hjólhýsið var alelda þegar slökkviliðið á Selfossi kom á vettvang. Slökkvistarf gekk greiðlega.
Eldurinn hafði náð að svíða viðarklæðningu undir járnklæðningu á húsinu og virtist á tímabili vera kominn í þakið. Svo var ekki og rifu slökkviliðsmenn járnklæðninguna frá til að komast að viðarklæðningunni.
Í seilingarfjarlægð fá hjólhýsinu er geymslusvæði röraverksmiðjunnar SET með stórum plaströrastæðum. Vindátt var hins vegar hagstæð svo ekki var hætta á geymslusvæðinu.