Tilkynnt var um gróðureld á þremur stöðum í Hestagjá á Þingvöllum klukkan rúmlega tíu í gærkvöldi. Eldarnir loguðu í sinu í og við Almannagjá og er talið að um íkveikju hafi verið að ræða.
Landverðir réðust á sinuna með kústum, skóflum og léttum slökkvitækjum og tókst að slökkva að mestu áður en slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni komu á vettvang. Þeir bleyttu vel í svæðinu til þess að slökkva alla glóð.
Að sögn Bjarna Daníelssonar, varðstjóra BÁ sem stýrði aðgerðum á vettvangi, var aðstoð vegfarenda á vettvangi ómetanleg og virkilega vel þegin.
Það vildi svo til að eldurinn logaði í graslendi þar sem ekki var trjágróður og því varð ekki stórkostlegt tjón af eldinum. Erfitt var þó að athafna sig við slökkvistörfin þar sem klöngrast þurfti upp brekkur og kletta til þess að komast að eldinum.
Afar þurrt er um þessar mundir á Þingvöllum og íkveikihætta því mikil. Brunavarnir Árnessýslu vilja brýna það sérstaklega fyrir fólki að fara varlega með eld og fylgjast með náunga sínum í meðförum á eldi en talið er að þarna hafi verið um íkveikju að ræða. Þingvellir eru ein af helstu náttúruperlum okkar Íslendinga og því afar mikilvægt landsmenn hjálpist að við að tryggja öryggi hennar.