Í vikunni fór fram formleg afhending gjafar frá Kvenfélagi Hvammshrepps til göngudeildar lyflækningadeildar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Konurnar í félaginu gáfu deildinni glæsilegt Samsung 48" sjónvarp og er verðmæti gjafarinnar 150 þúsund krónur.
Í frétt á heimasíðu HSu segir að gjöfin komi sér einstaklega vel fyrir deildina, þar sem skjólstæðingar hennar þurfa reglulega að dvelja þar dagspart meðan þeir annaðhvort eru þar í lyfjagjöf, blóðgjöf eða blóðskilun. Sjónvarpið mun stytta þær stundir til muna, því þar getur tíminn oft verið lengi að líða.
Kvenfélag Hvammshrepps er eitt þriggja kvenfélaga í Mýrdalshrepp og eru félögin gamalgróin og til síðan fyrir sameiningu þriggja hreppa í einn.
Kvenfélagið fjármagnar gjafir sínar með því að halda reglulega spilakvöld og bingó og er aðdáunarverður dugnaðurinn og eljusemin í félagi sem ekki telur nema á annan tug kvenna að geta gefið svona myndarlega gjöf.
Stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og starfsmenn göngudeildar lyflækninga þakka kærlega fyrir gjöfina og þann góða og hlýja hug sem gjöfinni fylgir og óska félaginu alls hins besta.