Á dögunum afhentu fulltrúar Kvenfélags Selfoss Björgunarfélagi Árborgar (BFÁ) 100.000 króna styrk til uppbyggingar og endurnýjunar á straumvatnsbjörgunarbúnaði sveitarinnar.
Á starfssvæði björgunarfélagsins er ein vatnsmesta á Íslands, Ölfusá, auk fjölda annarra straumvatna. Sveitin hefur í gegnum árin sérhæft sig í straumvatnsbjörgun með tilliti til björgunar á Ölfusá. Á hverju ári koma upp tilfelli þar sem BFÁ er boðað á hæsta forgangi í útkall þar sem óttast er um líf einstaklings sem er ýmist í ánni eða við, nú síðast fimmtudaginn 13. nóvember þegar bíll fór í ánna við Hótel Selfoss.
Styrkurinn frá Kvenfélaginu nýtist BFÁ mjög vel í ljósi þess að kominn er tími á endurnýjun straumvatnsbjörgunarbúnaðar sveitarinnar en slíkur búnaður er dýr í innkaupum og hefur þar að auki takmarkaðan líftíma. Auk þess stefnir sveitin á kaup á nýjum búnaði til að auka getu hennar á þessu sviði. Sveitin hefur einnig verið að efla menntun og þekkingu félagsmanna á sviði straumvatnsbjörgunar en á dögunum sóttu fjórir félagsmenn fagnámskeið í straumvatnsbjörgun sem kennt var af innlendum og erlendum leiðbeinendum sem eru leiðandi á sínu sviði í Evrópu. Þeir hafa nú lokið þessu námskeiði og hlotið alþjóðlega vottun og vinna nú að því í samvinnu við Slysavarnarfélagið Landsbjörg að mennta björgunarsveitarmenn landsins í þessum fræðum.
Kvenfélag Selfoss hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við mikilvægt starf BFÁ með styrkjum til búnaðarkaupa en kvenfélagið fjármagnar starf sitt að miklu leyti með sölu á Jórunni, dagbók félagsins, sem einmitt er að koma út núna og verður boðin til sölu næstu helgar í Kjarnanum fyrir framan Krónuna á Selfossi.