Kvenna-kakóathöfn til að kveðja gamla árið

Anna Margrét Ólafsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Mánudaginn 30. desember verður kvenna-kakóathöfn og gongbað í Yoga sálum á Selfossi með Önnu Margréti Ólafsdóttur.

Kakóathafnir eða kakójóga nýtur sívaxandi vinsælda á Íslandi. Ekki er langt síðan sunnlenska.is tók viðtal við Kamillu Ingibergsdóttur í tilefni þess að hún hélt kakóró á Hellu. Umrædd Kamilla er einn helsti forsprakki kakóhugleiðslu á Íslandi en þess má geta að hún er einmitt mágkona Önnu Margrétar.

Áhrifin svipuð því þegar við verðum ástfangin
En hvað er gert í kakóathöfn eins og þessari sem Anna mun halda á næstsíðasta degi ársins? „Í kakóathöfn er byrjað á því að fá sér svokallað ceremonial grade hreint cacao sem er flutt inn frá Guatemala. Hreint kakó er sneisafullt af góðum efnum og ber þá fyrst að nefna phenylethylamine (PEA) sem mannslíkaminn framleiðir t.d. þegar við verðum ástfangin og anandamide, sem einnig er þekkt sem „the bliss chemical“. Það er endorfín sem mannslíkaminn framleiðir og hefur aðeins fundist í einni plöntu – Cacao Theobroma,“ segir Anna í samtali við sunnlenska.is.

„Kakóið inniheldur líka andoxunarefni, er mjög magnesíumríkt, það hjálpar t.d. til við slökun og fjöldamörg önnur góð efni. Það er hægt að lesa meira um kakóið góða á síðunni kako.is hjá mágkonu minni Kamillu sem flytur kakóið inn,“ segir Anna.

Jóga-áhuginn kviknaði á Selfossi
„Þetta er fyrsta langa kakóathöfnin sem ég held utan um og fullkomlega við hæfi að vera á Selfossi þar sem áhuginn fyrir öllu þessu kviknaði,“ segir Anna en hún fór í sinn fyrsta jógatíma á Selfossi 18 ára gömul. Fyrir fimm árum lauk hún síðan jógakennararéttindum og hefur kennt jóga og hugleiðslu fyrir börn og fullorðna síðan.

„Ég fór með mágkonu minni Kamillu í fyrstu kakóathöfnina fyrir nokkrum árum síðan og hef drukkið kakó daglega núna í að verða tvö ár og finn hvað það hjálpar mér mikið. Bæði til að losna við bólgur úr líkamanum, það hjálpar mér að halda fókus í hugleiðslu og daglegu lífi en við hjónin erum að stofna fyrirtæki um þessar mundir og eigum þrjú börn og hund, þannig að það er oft ansi líflegt hér á bæ,“ segir Anna en hún verður með kakó frá Kamillu til sölu eftir kakóathöfnina.

Ljósmynd/Aðsend

Áhrif tónheilunar ótvíræð
„Þegar búið er að drekka kakóið eru gerðar öndunaræfingar og svo er lagst í slökun og hugleiðslu. Ég nota jóga nidra að hluta til í slökuninni en það er stundum kallað hinn jógíski svefn, þar sem klukkutíma slökun jafnast á við fjögurra tíma svefn. Ég nota einnig gong í slökuninni en ég á svokallað Venusargong sem ég spila á. Venusargong dregur nafn sitt af því að búið er að mæla tíðni í kringum plánetuna Venus. Venus hjálpar til við að ná hvers konar jafnvægi og þá sér í lagi í samskiptum. Gongbað getur hjálpað til við streitulosun, minnkun krónískra verkja og ónæmiskerfið styrkist,“ segir Anna og bætir því við að áhrif hljóðheilunar og gong sé mikið rannsökuð um þessar mundir og jákvæðu áhrifin séu örugglega meiri en nú þegar komið í ljós.

Mikilvægt að sleppa takinu á gamla árinu
Að sögn Önnu er dagsetningin fyrir kakóathöfnina, 30. desember, engin tilviljun. „Í þessari athöfn verður lögð áhersla á að kveðja árið 2019 með öllu því sem það færði okkur og sleppa svo taki á því sem þjónar okkur ekki lengur og þannig skapa rými fyrir nýjar áskoranir árið 2020,“ segir Anna.

„Ég persónulega elska að byrja nýtt ár og þær eru ófáar dagbækurnar sem ég á stútfullar af allskyns listum sem ég ætla að áorka á nýju ári. Hvort að mér hafi svo tekist að klára þá alla er önnur saga en mig langar að skapa rými til að setja ásetning fyrir nýtt ár,“ segir Anna.

„Ástæðan fyrir því að mig langar að halda viðburðinn á Selfossi er sú að þar eru svo margar magnaðar konur og margar sem mér þykir svo vænt um enda er ég uppalin á Selfossi. Tíminn ætti að henta öllum konum sem vilja slökun og jafnvægi í líf sitt og engin þörf er á að hafa stundað jóga, verið í slökun eða neinu slíku áður. Þetta snýst bara um að hlúa að sjálfri sér, skapa rými til að hlaða batteríin og vera í fallegri kvennaorku,“ segir Anna að lokum en þess má geta að svo skemmtilega vill til að 30. desember er einmitt afmælisdagurinn hennar Önnu.

Allar nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á Facebook.

Fyrri greinGleðileg jól!
Næsta greinÖkumenn fari varlega