Rannsókn á eldsvoða, sem varð síðdegis í gær á iðnaðarlóð í Gagnheiði á Selfossi, er á lokastigi. Eldurinn kviknaði út frá fikti tveggja 9 ára gamalla drengja.
Tilkynnt var um eldinn klukkan 18:33 og réði slökkvilið Brunavarna Árnessýslu réði niðurlögum hans á rúmri klukkustund.
Nú er upplýst að eldurinn kviknaði út frá fikti tveggja 9 ára gamalla drengja. Drengirnir fundu kveikjara á víðavangi og kveiktu eld í spítnabraki á lóðinni þar sem rörin voru. Áður höfðu þeir fundið brúsa með vökva í sem þeir helltu úr. Líkur eru á að í brúsanum hafi verið eldfimur vökvi og það útskýri hvers vegna eldurinn magnaðist svo upp á skömmum tíma.
Barnaverndaryfirvöld í Árborg munu vinna í málum drengjana með foreldrum þeirra. Lögregla segir ljóst að þarna var um óvitaskap að ræða og drengirnir ekki áður valdið tjóni á þessu svæði né annars staðar.
Að slökkvistarfinu komu margir viðbragðsaðilar ásamt lögreglu og slökkviliði. Má þar nefna björgunarsveitarmenn, Rauða krossinn, barnaverndaryfivöld í Árborg, fjölmiðla og fleiri. Lögreglan segir að allir þessir hópar hafi unnið mjög vel saman í störfum sínum og hver tók tillit til annars. Loka þurfti götum og rýma 50 hús í nálægum götum. Áætlað er að um 200 manns hafi búið á rýmingarsvæðinu. Fjöldahjálparstöð var opnuð í Vallarskóla, þangað leituðu 25 manns.
Lögreglan vill koma þakklæti til almennings sem virti lokanir og gáfu viðbragðsaðilum rými til slökkvistarfsins.