Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í sumarbústað í landi Hests, vestan við Hestfjall um klukkan hálftólf í kvöld. Húsráðandi náði að slökkva eldinn.
Eldurinn kviknaði í vegg bakvið kamínu og brást húsráðandi skjótt við, beitti duftslökkvitæki og náði að slökkva eldinn. Tvennt var í húsinu og varð fólkinu ekki meint af.
Slökkviðliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu mættu á vettvang, rifu klæðningu frá kamínunni og fullvissuðu sig um að ekki leyndust glæður í veggnum. Sumarbústaðurinn var síðan reykræstur.