Hið árlega dagatal sjúkraflutningamanna í Árnessýslu er komið úr prentun og hefst sala á því um helgina. Sjúkraflutningamennirnir hafa aldrei litið betur út en einmitt í ár.
„Eins og áður fer ágóðinn af sölunni í að styrkja fjölskyldu langveiks barns og einnig í styrktar-og áfallasjóð sjúkraflutningamanna í Árnessýslu,“ sagði Steinar Garðarsson, sjúkraflutningamaður, í samtali við sunnlenska.is. Sjúkraflutningamennirnir hafa heimsótt fjölskyldur langveikra barna síðustu ár og á aðfangadag í fyrra fengu tvær fjölskyldur heimsókn.
Dagatalið hefur verið gefið út í nokkur ár og hefur það alltaf vakið mikla athygli og nánast verið slegist um upplagið. Steinar segir að vegna mikillar eftirspurnar hafi upplagið verið aukið í ár en dagatalið kostar 1.500 krónur.
Í gegnum tíðina hefur töluvert af holdi verið til sýnis á dagatölunum og á því er engin undantekning í ár en sjúkraflutningamennirnir brugðu á leik á ljósmyndastofunni Stúdíó Stund á Selfossi. Þrátt fyrir að vera ögrandi eru allar myndirnar innan siðsamlegra marka en óhætt er að segja að kynþokkinn leki af dagatalinu.
Kaupendur geta nálgast dagatalið hjá sjúkraflutningamönnunum sjálfum en þeir munu t.d. selja það sjálfir í verslunum á Selfossi á næstu dögum.