Í dag kl. 12-13 mun nefnd sem vinnur að tillögum um þjóðgarð á miðhálendinu kynna störf sín og svara spurningum áhugasamra í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli.
Umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði nýverið þverpólitíska nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka á Alþingi auk tveggja fulltrúa sveitarfélaga. Þá sitja fulltrúar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu í nefndinni.
Verkefni nefndarinnar eru m.a. þau að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landssvæða innan hans í verndarflokka, fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf.
Jafnframt er henni ætlað að gera tillögur að helstu áherslum í stjórnunar- og verndaráætlunum og atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn og lagafrumvarpi um þjóðgarðinn, þar sem m.a. er tekin afstaða til stjórnskipulags þjóðgarðsins.
Allir áhugasamir eru velkomnir á þennan kynningarfund.