Fyrir skömmu hófu bændurnir á Læk í Flóa að selja sinn eigin ís og er óhætt að segja að það hafi vakið nokkra athygli.
Auk þess að selja ísinn í bændaverslunni Búbót á Þingborg hefur ein verslun í Reykjavík hafið sölu á ísnum. Það eru þau Guðbjörg Jónsdóttir og Gauti Gunnarsson, bændur á Læk í Flóa, sem standa fyrir framleiðslunni en þau eru með 45 mjólkandi kýr.
Gauti sagði að þetta væri krydd í tilveruna en vissulega fylgdi þessu talsverð vinna og umstang. Hann sagðist aðspurður ekki geta sagt til um hvaða stefnu þessi framleiðsla tæki en vissulega væri ætlunin að koma ísnum í fleiri verslanir.
„Við erum nú enn að kynna þetta og læra almennilega á framleiðsluna en þetta lofar góðu til þess,” sagði Gauti. Stefnt er að framleiðslu úr 5 til 7.000 lítrum sem jafngildir því sem ein til tvær kýr mjólka.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.