Ársuppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar liggur nú fyrir. Afurðahæsta búið að þessu sinni er Hraunkot í Landbroti þar sem meðalafurðir ársins reyndust vera 8.340 kg eftir árskú.
Þar er um að ræða nýtt og stórglæsilegt Íslandsmet en eldra met átti Akbraut í Holtum, 8.159 kg frá árinu 2008. Í verðefnum mjólkuðu kýrnar í Hraunkoti 601 kg MFP. Í öðru sæti hér sunnanlands og þriðja sæti á landsvísu er Kirkjulækur í Fljótshlíð með 7.811 kg/árskú og 584 kg MFP og í þriðja sæti Reykjahlíð á Skeiðum með 7.734 kg/árskú og 578 kg MFP.
Helstu niðurstöður eru þær að meðalnyt á landsvísu jókst milli ára um 94 kg, úr 5.342 kg/árskú í 5.436 kg/árskú. Hér á Suðurlandi jukust meðalafurðir eftir árskú um 82 kg, úr 5.424 kg í 5.506 kg.
Ef litið er til einstakra kúa þá var Týra 120 í Hraunkoti afurðahæst en hún mjólkaði 12.144 kg á árinu 2011. Týra er dóttir Hræsings 98046. Önnur í röðinni varð Blíða 1151 í Flatey í Hornafirði með 11.776 kg og þriðja Ljúfa 106 í Hraunkoti með 11.747 kg.
Þess má geta að af þeim sjö kúm sem mjólkuðu yfir 11 þús. kg eru þrjár í Hraunkoti.