Verktakafyrirtækin Jökulfell ehf í Kópavogi og Norðurtak ehf á Sauðárkróki buðu lægst í endurbyggingu hluta Landvegar sem vinna á í sumar.
Um er að ræða endurbyggingu á 7,5 km kafla frá Galtalækjarskógi að Þjófafossvegi, ásamt útlögn klæðingar.
Tilboð Jökulfells/Norðurtaks hljóðaði upp á tæpar 112 milljónir króna en kostnaðaráætlun hljóðar upp á rúmar 130 milljónir króna.
Næstu boð á eftir komu frá Mjölni á Selfossi, rúmar 113 milljónir, Þjótanda á Hellu 117,7 milljónir og Gröfutækni á Flúðum 129,8 milljónir. Framrás í Vík bauð rúmar 130,7 milljónir og Ræktunarsamband Flóa og Skeiða 136,6 milljónir.
Stefnt er að verklokum í síðasta lagi þann 1. september.