Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að lækka gatnagerðargjöld af byggingarhæfum lóðum í eigu sveitarfélagsins.
Lækkunin nemur 25% af gatnagerðargjöldum samkvæmt núgildandi gjaldskrá og tekur til þeirra lóða sem sveitarfélagið á tilbúnar til úthlutunar á Eyrarbakka, Selfossi og Stokkseyri. Sami afsláttur gildir fyrir viðbyggingar á þeim lóðum sem þegar hefur verið byggt á.
Lækkunin tekur einnig til úthlutana sem hafa átt sér stað frá síðustu áramótum.
„Með þessu vill bæjarráð koma til móts við húsbyggjendur vegna mikilla vísitöluhækkana,“ segir í fundargerð bæjarráðs en tillagan var samþykkt samhljóða.