Í síðustu viku voru opnuð tilboð í slátt og hirðingu á svæðum á vegum Hveragerðisbæjar. Verkið var boðið út til tveggja ára með möguleika á framlengingu í eitt ár.
Fjögur tilboð bárust og átti Sigurður Natanelsson lægsta tilboðið, 18,9 milljónir króna en kostnaðaráætlun sem Efla vann fyrir Hveragerðisbæ hljóðaði upp á 37,7 milljónir króna. Tilboð Sigurðar er því um 50% af kostnaðaráætlun verksins.
Önnur tilboð sem bárust voru frá Slegið ehf 26,3 milljónir króna, Golfklúbbi Hveragerðis 36,6 milljónir króna og Garðlist ehf 41,8 milljónir króna.
Verkið felst í því að slá og hirða tilgreind svæði í Hveragerðisbæ á tímabilinu frá byrjun maí fram í september og er um að ræða um 1,2 milljónir fermetra sem þarf að slá í heildina.