Lækkar hratt í Ölfusá

Þrjátíu metra breiður áll rennur nú undir Ölfusárbrú en á berginu norðan ár sést glögglega hve hátt var í ánni í gær. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Staðan á Ölfusá við Selfoss er gjörbreytt í dag, þrátt fyrir að enn séu þykkar íshrannir á ánni. Yfirborð árinnar hefur lækkað um 1,4 metra frá því um miðjan dag í gær.

Þá fór vatnshæðarmælirinn upp í 4,99 m sem er hæsta vatnsstaða sem sést hefur í ánni í mörg ár. Nú hefur lækkað í ánni og ísinn brotnað og rennur vatn óhindrað í um 30 metra breiðum ál undir Ölfusárbrú.

Lögreglan á Selfossi beinir þeim tilmælum til fólks að fara varlega í kringum ána og alls ekki fara út á ísinn, sem er mjög ótraustur. Aðstæður geti breyst hratt við árbakkann.

Áfram verður fylgst vel með jakaburði í Ölfusá en útlit er fyrir að í vikulokin kólni aftur í veðri.

Fyrri greinMikil spenna fyrir aðventuhátíð á Þingborg
Næsta greinSelfoss tapaði botnslagnum