
Lágengi á Selfossi er fallegasta gatan í Árborg 2022 en íbúar götunnar fengu umhverfisviðurkenningu sveitarfélagsins afhenta síðdegis í dag.
Það er umhverfisnefnd Árborgar sem veitir viðurkenninguna en nokkrar götur voru tilnefndar og voru nefndarmenn á einu máli um að Lágengi skyldi hljóta viðurkenninguna í ár. Að mati nefndarinnar eru margir fallegir og vel hirtir garðar við götuna.
Elsti og yngsti íbúinn í götunni, þeir Jón Ólafsson fæddur 1931 og Leví Snær Pedersen fæddur 2020, fengu blómvendi og þeir afhjúpuðu síðan farandskilti sem sett hefur verið upp á ljósastaur fremst í götunni. Þetta er í annað sinn sem Lágengi hlýtur þessi verðlaun, síðast árið 2007.

