Lagið varð til eftir stöðuuppfærslu á Facebook

Lagið „Sumarnótt“ eftir Stefán Þorleifsson við ljóð Möggu S. Brynjólfsdóttur var eitt fjögurra laga sem fékk sérstaka viðurkenningu í samkeppni um kórlag í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands auglýsti eftir frumsömdu og óbirtu ljóði og lagi fyrir blandaðan kór og skyldi lagið hæfa tilefninu og henta vel til söngs. Sextíu lög bárust í keppnina og voru úrslitin kunngjörð í gær. Lagið Landið mitt eftir Jóhann G. Jóhannsson bar sigur úr býtum.

Fjögur önnur lög þóttu einnig skara framúr með einu eða öðru móti og þótti ástæða til að veita þeim sérstaka viðurkenningu. Sumarnótt eftir Stefán og Möggu var eitt þeirra.

Ánægjulegt að vera í hópi þessara listamanna
„Tilurð lagsins má tengja við stöðuuppfærslu á Facebook. Ég kom seint heim í sumar og stóð með símann minn í sumarnótt, smellti mynd af nóttinni og skrifaði undir hana „Dýrmætasti tími veraldar“. Þetta varð hvati fyrir Möggu að skrifa ljóð sem varð svo hvati hjá mér til að semja lag við það,“ segir Stefán í samtali við sunnlenska.is.

Hann er ánægður með viðurkenninguna og segir ánægjulegt að vera í hópi þessara þekktu listamanna, en auk hans hlutu Hjálmar H. Ragnars, Michael Jón Clarke og Sigurður Flosason viðurkenningu fyrir sín lög.

Í umsögn dómnefndar segir að Sumarnótt sverji sig meira í ætt við dægurlög, með grípandi laglínu og kvæðið er hrífandi lýsing á töfrum íslenskrar sumarnætur.

Fyrri greinMetskráning í Hengill Ultra
Næsta greinÖll sveitarfélög landsins fá bók að gjöf frá NTÍ