Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda og heildsöluverðs á ógerilsneyddri mjólk í lausu máli.
Þann 1. október mun lágmarksverð 1. flokks mjólkur til bænda hækka um 2,82%, úr 126,20 krónur lítrinn í 129,76 krónur. Þann 9. október mun svo heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem nefndin verðleggur hækka almennt um 2,30%.
Í tilkynningu frá Matvælaráðuneytinu segir að hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda sé til komin vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun í júní síðastliðnum og geymdrar hækkunar fjármagnskostnaðar sem hefur hingað til ekki verið reiknað með í gjaldaliðum verðlagsgrundvallar.
Frá síðustu verðákvörðun hafa gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hækkað um 0,86% en samanlagt hækkar verðlagsgrundvöllur um 2,82% með tilliti til hækkunar fjármagnskostnaðar.
Heildsöluverð á mjólk og mjólkurvörum hækkar um sem nemur kostnaðarhækkun á mjólk frá bændum og hækkun vinnslu- og dreifingarkostnaðar.