Land grætt við Bleiksárgljúfur

Við björgunaraðgerðir og leit við Bleiksárgljúfur í Fljótshlíð í júní urðu talsverðar gróðurskemmdir. Gróður rýrnaði töluvert og einnig lét hann mikið á sjá vegna þjöppunar og hjólför mynduðust sums staðar.

Óhjákvæmilegt var að koma björgunarbúnaði upp nokkuð brattar brekkur og mjög mikið var gengið um svæðið við gljúfrið.

Að beiðni björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli og í samráði við landeigendur svæðisins, sveitarstjórn Rangárþings eystra og lögregluna á Hvolsvelli ákvað Landgræðslan að freista þess að lagfæra gróðurskemmdirnar.

Brýnt var að hefja gróðurstyrkingu og lagfæringar sem allra fyrst til þess að sáðgrös eins og túnvingull næði sér vel á strik fyrir haustið, en mikil hætta var á úrrennsli úr jarðvegssárum í brekkunni ef ekki hefði verið gripið til viðeigandi ráðstafana.

Síðastliðinn mánudag hófust starfsmenn Landgræðslunnar handa við að endurheimta gróður á svæðinu við gljúfrið. Gróður var styrktur með áburðargjöf og fræi af túnvingli og sveifgrösum sáð í jarðvegssár. Endurtaka þarf gróðurstyrkingu næsta vor og standa vonir til þess að ásýnd svæðisins verði ámóta og nærliggjandi gróðurlendi með tíð og tíma.

Magnús Þór Einarsson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar og félagi í björgunarsveitinni Dagrenningu, stjórnaði aðgerðum. Hann tók þátt í leitinni og þekkir því mjög vel allar aðstæður.

Fyrri greinBreytingar á stjórn SASS
Næsta greinAnnríki í sjúkraflutningum