„Ef allt gengur að óskum er vonandi hægt að sigla í Landeyjahöfn í lok næstu viku“, segir Fannar Gíslason verkfræðingur á siglingasviði Vegagerðarinnar í samtali við RÚV.
Miðað við veðurspá geti belgíska dýpkunarskipið Galilei 2000 dýpkað næst á sunnudag. Það taki skipið þrjá daga að ljúka verkinu. Fannar segir að starfsmenn Suðurverks ljúki brátt við að moka foksandi úr höfninni en vel á annan tug þúsunda rúmmetra hafi verið fluttur úr höfninni.
Fannar segir að áhöfn belgíska skipsins gangi æ betur að dýpka, áhöfnin hafi vanist aðstæðum og fengið aðstoð staðkunnugra. Nú sé komið til sögunnar lítið skip sem geti fylgt Galilei. Það sé búið plógi og dragi sandinn frá görðum svo stærra skipið geti dælt honum upp. „Galilei 2000 er afkastaskip, en það er stórt og því þarf að beita þessum aðferðum. Ef öldufar helst eins og spáð er, þá gengur þetta upp í næstu viku. Hafnarkjafturinn er opinn, það vantar bara herslumuninn inni í höfninni“.