Herjólfur mun sigla aftur til Landeyjahafnar í fyrramálið. Aðstæður til dýpkunar við höfnina hafa verið góðar undanfarna daga.
Á vef Siglingamálastofnunar kemur fram að dýpi í hafnarmynni sé nú orðið nægjanlegt til að Herjólfur geti siglt í höfnina. Sanddæluskipið Perlan mun þó í fáeina daga halda áfram að hreinsa gosefnin úr innsiglingu og höfninni sjálfri.
Mælingabátur Siglingastofnunar er í höfninni og á mbl.is kemur fram að skipstjóri Herjólfs hafi ákveðið að sigla í fyrramálið eftir niðurstöður mælinga kl. 15 í dag.
Fyrsta brottför Herjólfs frá Vestmannaeyjum er klukkan 9 í fyrramálið og frá Landeyjahöfn klukkan 10:30.