Umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir mun afhenda Landgræðsluverðlaunin fyrir árið 2011 í höfuðsstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti á morgun kl. 15.
Þetta verður í tuttugasta sinn sem verðlaunin verða veitt.
Í tilkynningu frá Landgræðslunni segir að til að ná settum markmiðum um gróðurvernd og landbætur leggi Landgræðslan mikla áherslu á fræðslu, kynningu og þátttöku almennings í landgræðslustarfinu.
Hlutverk landgræðsluverðlaunanna er að kynna og efla enn frekar það mikla sjálfboðaliðastarf og annað samstarf sem unnið er víðs vegar um landið. Þessi verðlaun eru veitt einstaklingum og/eða félögum og fyrirtækum fyrir fram úr skarandi störf í þágu landgræðslu og gróðurverndar. Fjórir aðilar munu hljóta verðlaunin í ár, og eru verðlaunagripirnir unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum við Egilsstaði.
Með veitingu landgræðsluverðlaunanna vill Landgræðslan vekja athygli þjóðarinnar á fórnfúsu starfi ótal þjóðfélagsþegna að landgræðslumálum og jafnframt hvetja fleiri til dáða.