Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug í gær yfir Kötlu, Grímsvötn og Öskjuvatn til að kanna aðstæður á svæðinu með hitamyndavél, eftirlits- og leitarratsjá flugvélarinnar.
Af fenginni reynslu hafa starfsmenn á flugvélinni TF-SIF breytt starfsvenjum sínum talsvert. Í stað þess að einblína á ferðir sjófarenda þá eru hreyfingar Íslands einnig orðnar viðfangsefni, einkum með tilliti til jarðhræringa sem geta varðað almannaheill.
Má þar nefna eldana á Fimmvörðuhálsi, Eyjafjallajökli og í Grímsvötnum sem standa okkur næst í tíma, en í þeim hamförum stóðu áhafnir TF-SIF í fremstu línu varðandi gagnaöflun og almannavarnir.
Í eftirlitsfluginu voru aðstæður til radarmyndatöku ekki sem bestar yfir Grímsvötnum og Kötlu og erfitt er að segja til um hvort breyting hefur orðið á yfirborði jökulsins. Voru upplýsingar sendar til almannavarna og jarðvísindamanna.