Sveitarfélagið Árborg hefur samið við Landhönnun slf. á Selfossi um gerð deiliskipulagstillögu fyrir nýtt hverfi í landi Björkur, sunnan við byggðina á Selfossi.
Landið sem um ræðir liggur sunnan Suðurhóla, niður með Eyravegi og Eyrarbakkavegi og er um 40 hektarar að stærð.
Þar er gert ráð fyrir íbúðasvæði, leik- og grunnskóla og verslunar- og þjónustusvæði.
Leitað var tilboða í skipulagsgerðina og átti Landhönnun slf lægsta tilboðið, rúmar 5,4 milljónir króna.
Aðrir sem buðu í verkið voru Húsey ehf tæpar 6,3 milljónir króna, Verkís hf. rúmar 10,9 milljónir króna, Steinsholt ehf 12 milljónir króna, Teiknistofa arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar ehf. rúmar 16,0 milljónir króna og Landform ehf tæpar 17,3 milljónir króna.
Lýsing á deiliskipulagsverkefninu skal liggja fyrir, tilbúin til fyrirlagnar í skipulags- og byggingarnefnd Árborgar þann 1. október næstkomandi. Deiliskipulagstillagan skal svo liggja fyrir eigi síðar en þann 1. febrúar 2018.